Algeng mistök

Algengustu mistökin hjá óvönum eru að grípa allt of stóra sög og saga frá rangri hlið, með réttuna frá sér, ef við grípum til samlíkingar úr saumaskapnum. Þegar grófar tennur sagarinnar ryðjast niður úr efninu getur það orðið til þess að það flísist úr fletinum og annars fallegur flötur skemmist. Ástæðan fyrir þessu er sú að flestar sagir eru með tennur sem hallast fram á við og skerast niður í efnið þegar þú ýtir söginni fram. Tennurnar eru líka skekktar út til hliðar til skiptis, til þess að koma í veg fyrir að sögin festist þegar þú ert að saga.

Það er bilið á milli sagartannanna sem ákvarðar hve sagarfarið er breitt, nokkuð sem gott er að hafa í huga þegar saga á eitthvað fínt. Það er betra að taka öllu með ró og nota frekar smátennta sög þegar þú vilt vera viss um útkomuna. Ef við erum á hinn bóginn að fara saga grófan við, eins og til dæmis sperrur eða bita, er betra að nota öfluga og gróftennta sög.

Rétt tækni

Því stöðugri sem spýtan sem þú ætlar að saga er, því léttara er að saga. Notið gott undirlag eða borð og látið einhvern annan halda í endann sem stendur út. Það getur verið gott að leggja hnéð ofan á það sem verið er að saga til aukins stuðnings. Ef virkilega á að vanda til verksins getur oft verið betra að þvinga það fast sem verið er að saga. Átakið við sögunina á að vera langt og mjúkt. Ef sagað er með rykkjum er hætta á því að sögin festist eða að sagarfarið skekkist.

Algengar sagir


Bogasög:

Fyrst og fremst notuð til að saga tré, planka og grófan við.

Hefðbundin sög:

Þetta er algengasta gerðin og notuð við flesta þætti smíðavinnu, þó ekki fínsögun. Þessar sagir eru með nokkrum gerðum sagartanna. Beintenntar sagir eru notaðar til að saga þvert á viðinn, en sagir með tvískiptum tönnum eru notaðar jafnt til að saga langsum eftir viðnum og til að saga þvert á.

Stingsög:

Lítil og fíntennt. Hentar vel til fínni verka.

Bakkasög: 

Er í raun lík hefðbundinni sög en með styrkingu á efri brún sem gerir hana stöðugri. Bakkasagir eru yfirleitt fíntenntari en venjulegar handsagir og henta vel til að saga lista og þunnt efni.

Gráðusög:

Sög sem situr í stýringu og hægt er að velja mismunandi gráðuhorn til sögunar. Hentar mjög vel til að saga lista og annað efni þar sem nákvæmni er krafist. Ef slík sög er ekki fyrir hendi kemur bakkasög í staðinn, en gráðusögin er í raun þróun á bakkasöginni.

Góð ráð

  • Ef timbrið er rakt eða mjög þétt getur verið léttara að saga ef þú strýkur olíu eða uppþvottalegi yfir sagarblaðið.
  • Því minna horn sem er á milli sagarinnar og yfirborðs spýtunnar, því fínna sagarfar.
  • Krepptu þumalinn og láttu hann liggja sem stuðning að sagarblaðinu þegar þú byrjar að saga. Eftir nokkur handtök er sagarblaðið byrjað að grípa og þú getur tekið þumalinn frá.
  • Til að komast hjá því að flísist um of úr timbrinu þegar þú sagar, má setja límband yfir sagarfarið. Límbandið ætti að halda að og varna því að flísar myndist