Starfsþróun hjá Húsasmiðjunni

Hjá Húsasmiðjunni starfar breiður hópur 500 starfsmanna. Störfin eru fjölbreytt og tækifæri til starfsþróunar víða. Hægt er að fara ýmsar leiðir til að þróast í starfi, t.d. axla meiri ábyrgð í eigin starfi, færast til í starfi innan starfsstöðvar eða á milli starfsstöðva ásamt því að færast í hærri stöður.

Við erum svo heppin að mikið af okkar tarfsmönnum eru með mjög langan starfsaldur, sá sem hefur hæstan starfsaldur hefur unnið hjá Húsasmiðjunni í 45 ár! 

Flestir þessa starfsmanna hafa svo sannarlega náð að efla þekkingu sína, viðhorf og færni á þessum árum og þar með náð að fylgja eftir stöðugum breytingum, kröfum og tíðaranda hverju sinni, þannig eykst virði bæði starfsmanna og fyrirtækisins.

Anna Bragadóttir

Mannauðsfulltrúi

Hvenær hófst þú störf í Húsasmiðjunni?  Ég  hóf störf í Húsasmiðjunni árið 2002 þá 18 ára gömul sem kassastarfsmaður og var í því starfi í 2 ár áður en þá var mér boðið nýtt starf í fyrirtækinu.

Hvaða störfum hefur þú gengt í Húsasmiðjunni?  Árið 2004 var mér boðið nýtt starf með meiri ábyrgð.  Þar hófst mín starfsþróun fyrir alvöru. Ég starfaði fyrst á þjónustuborði verslunarinnar í Skútuvogi. Stuttu seinna tók ég einnig við bókhaldi og uppgjöri fyrir verslunina. Í kjölfarið tók ég við sem deildarstjóri þjónustuborðs og afgreiðslukassa í Húsasmiðjunni og Blómavali  í Skútuvogi. Árið 2015 var ég hluti af teymi sem leiddi innleiðingu á nýju tölvukerfi fyrir Húsasmiðjuna. Eftir að því lauk var mér boðin staða á skrifstofu í bókhaldsdeild og nú í ár tók ég við stöðu í mannauðsdeild og sé um fræðslu-og launamál ásamt fleiri verkefnum.

Hvað er best við að starfa í Húsasmiðjunni og hvaða ráð gefurðu þeim sem vilja þróast í starfi.  Það eru mörg og fjölbreytt störf í Húsasmiðjunni og næg tækifæri fyrir þá sem hafa áhuga á að vaxa í starfi og takast á við ný verkefni og þannig sífellt að bæta við þekkingu og læra nýja hluti.  

Helga Bjarnadóttir

Aðstoðarrekstrarstjóri Húasmiðjunnar í Grafarholti

Hvenær hófstu störf í Húsasmiðjunni?Ég hef sterk tengsl við Húsasmiðjuna því bæði mamma og systir mín hafa unnið hjá fyrirtækinu. Ég hóf fyrst störf í Húsasmiðjunni þegar ég var í skóla einn vetur árið 1997. Ég kom aftur til Húsasmiðjunnar í október 2018, fyrst í hlutastarfi sem síðan þróaðist í fullt starf og fljótlega síðar stjórnendastarf. Það má því segja að ég sé með stórt Húsasmiðjuhjarta og sterka tengingu við fyrirtækið.

Hvernig störfum hefur þú gegnt í húsa?Þegar ég hóf störf fyrst þá var í skóla og vann á afgreiðslukassa. Þegar ég kem aftur 2018 þá er ég ráðin inn sem deildarstjóri búsáhalda og fatadeildar, ásamt því að hafa yfirumsjón með útstillingum í versluninni. Í maí 2021 var mér boðið nýtt starf aðstoðarrekstrarstjóra í versluninni sem ég þáði og sinni því ásamt því að hafa umsjón með búsáhalda-og fata deildinni. 

Hvernig kom það til að þér var boðið starf aðstoðarrekstrarstjóra?Það má segja að þróunin hafi verið náttúruleg. Ég var byrjuð að taka að mér ýmis verkefni fyrir utan mín daglegu störf fyrir rekstrarstjóra verslunarinnar. Ég var svo líka búin að ræða við hann og sýna það í verki að ég gæti tekist á við meiri ábyrgð og fjölbreyttari verkefni. Þegar kom að ráðningu aðstoðarrekstrarstjóra s.l. vor var mér boðið þetta starf sem ég þáði. Verkefnin eru mjög fjölbreytt sem hentar mér vel og miklar áskoranir sem gaman er að takast á við. Ég er núna á stjórnendanámskeiði á vegum Húsasmiðjunnar sem ég tel að muni efla mig sem stjórnenda og hjálpa mér að takast á við leiðtogahlutverkið í nýju starfi.   

Hver er lykillinn að því að þróast í starfiTil þess að þróast í starfi er mikilvægt að þú látir vita af þér og að þú sýnir í verki áræðni, metnað og frumkvæði. Ég hef brennandi áhuga á að gera hlutina vel og vil alltaf að við gerum eins vel og hægt er sama um hvaða verkefni um ræðir. Í Húsasmiðjunni eru næg tækifæri til starfsþróunar fyrir þá sem vilja. Það er mikilvægt að sækja sér sjálfur þekkingu og fræðslu sem eflir þig í starfi og sem einstakling og nýta þau tækifæri sem bjóðast eins og að sækja námskeið í Húsasmiðjuskólanum sem nýtast í daglegum störfum og til starfsþróunar.   

Gauti Sigurgeirsson

Rekstrarstjóri timbursölu-og vöruhúss í Kjalarvogi

Hvenær hófst þú störf í Húsasmiðjunni?  Árið 1996 hóf ég störf hjá Ískraft  sem er heildsala fyrir rafvirkja og rafiðnað í eigu Húsasmiðjunnar. Fyrsta árið starfaði ég við útkeyrslu á vörum til viðskiptavina. Því næst starfaði ég  í vöruhúsi Ískrafts. Árið 1999 er mér svo boðið starf í söludeild Ískrafts þar sem ég var í þrjú ár. Tók svo við stýringu á vöruhúsi Ískrafts og birgðastýringu útibúa okkar um land allt til ársins 2014. 

Hvaða störfum hefur þú gengt í Húsasmiðjunni?  Árið 2014 er mér boðið starf sem rekstrarstjóri verslunar Húsasmiðjunnar í Borgarnesi og stýrði þeirri verslun í þrjú ár eða þangað til að mér var boðið að taka við nýrri timbursölu í Fagmannaverslun Húsasmiðjunnar í Reykjavík. Fyrr á þessu ári tók ég svo einnig við stýringu á vöruhúsi byggingavara ásamt því að stýra áfram timbursölunni í Reykjavík. 

Hvað er best við að starfa í Húsasmiðjunni og hvaða ráð gefurðu þeim sem vilja þróast í starfi.  Það eru alltaf ný og krefjandi verkefni í Húsasmiðjunni sem gaman er að takast á við. Hér starfar frábært fólk og hér ríkir góður starfsandi.  Fyrir þá sem vilja þróast í starfi er mikilvægt að vera jákvæður og vera lausnamiðaður. Það eru engin vandamál – bara lausnir!

Jón Örn Bragason

Vörustjóri verkfæra, festingar og járnvara

Hvenær hófst þú störf í Húsasmiðjunni?  Árið 1975 var ég 19 ára og hóf störf hjá stofnanda Húsasmiðjunnar, Snorra Halldórssyni og lærði hjá honum húsasmíði. Á þessum árum framleiddi Húsasmiðjan og seldi einingahús og rak stórt og öflugt timburverkstæði. Við það starfaði ég fyrstu árin m.a. sem verkstjóri. 

Hvaða störfum hefur þú gengt í Húsasmiðjunni?  Húsasmiðjan opnaði byggingavöruverslun, árið 1984, nokkru síðar hóf ég störf þar sem sölumaður. Árið 1988 opnaði Húsasmiðjan stórverslun í Skútuvogi, Reykjavík. Þar starfaði ég fyrst sem deildarstjóri verkfæradeildar og sá um öll innkaup á verkfærum. Árið 1990 tók ég svo við rekstri verslunarinnar, sem rekstrarstjóri verslunar og var þar í rúm fjögur ár. Því næst tek ég við sem innkaupastjóri fagmannasviðs þar sem ég stýrði öllum innkaupum á verkfærum, festingum, málningu o.fl. Fyrirtækið stækkaði mjög ört á þessum árum og fleiri verslanir bættust við um land allt. Í dag starfa ég sem vörustjóri (purchasing manager) á  verkfærum, festingum, kítti o.fl.

Hvað er best við að starfa í Húsasmiðjunni og hvaða ráð gefurðu þeim sem vilja þróast í starfi.  Best við að starfa í Húsasmiðjunni er ótrúleg fjölbreytni í störfum og verkefnum. Ég væri ekki búinn að vera svona lengi nema af því að ég hef tekist á við fjölbreytt og krefjandi verkefni. Mikilvægast er að vera samviskusamur, áhugasamur og sýna mjög mikið frumkvæði.