Sómakólfur er mjög lífseig planta

Blaðfallegt og fjölær planta sem er afar harðgerð og þarf litla umhirðu og dafnar nánast hvar sem er innanhús. Latínuheiti sómakólfs er Zamioculcas zamiifolia.

Uppruni plöntunar er í Afríku og nær útbreiðsla hennar frá Kenía til norðanverðar Suður-Afríku. Sómakólfi var fyrst lýst árið 1829 en það var ekki fyrr en árið 1996 af hollensk garðyrkjustöð fór að framleiða hann í stórum stíll og náði plantan fljótlega miklun vinsældum vegna blaðfegurðar og vegna þess hversu harðgerð hún er. 

Sómakólfur er prýðileg planta fyrir byrjendur í pottaplönturækt og í opinber rými þar sem umhirða er stundum takmörkuð.

Blöðin glansandi og um sjö sentímetra að lengd og vaxa á leggjum sem geta orðið um 70 sentímetra langir og mynda vasalaga vöxt. Plantan er lítillega eitruð.

Sómakólfur dafnar best við 16 til 25° á Celsíus og þolir illa hita undir 15° á Celsíus. Þarf góðri birtu eða hálf skugga. Blöð plöntunnar geta brunnið og visnað í beinni sól. Rótin þolir ekki að standa í vatni og ber því að vökva plöntuna sparlega. Gott vökva sjaldan og láta moldina þorna á milli og ekki láta vatn standa í undirskálinni. Á veturna er nóg að vökva sómakólf einu sinni í mánuði og nóg er að gefa plöntunni daufa áburðarblöndu fjórum til sex sinnum á ári. 

Nóg er að umpotta plöntunni á tveggja til þriggja ára fresti og gott að blanda moldina með um einum þriðja af sandi til að gera henni gott. 

Blómstrar sjaldan en ef slíkt gerist eru blómin fimm til sjö sentímetra gulir kólfar sem myndast við neðarlega í blaðhvelfingunni. 

  • Vilmundur Hansen.