Lífrænn áburður er nauðsynleg næring fyrir allan jarðveg ef við viljum að eitthvað dafni í honum. Í lífræmunum áburði er að finna allt sem til þarf til að næra jarðvegin og allar lífverur sem í honum lifa. Í jarðvegi sem inniheldur mikið af lífrænum efnum er allt sem þarf til að gera garðinn gróskumikinn og fallegan.

Í lífrænum áburði eru öll næringarefni sem plöntur þurfa á að halda en þó sjaldnast í þeim hlutföllum sem nýtist plöntunum best. Það er því gott að líta á lífrænan áburð sem aðalréttinn en tilbúinn áburð sem vítamínið sem við tökum með morgunmatnum.

Hægt er að fá mismunandi gerðir lífræns áburðar, hrossaskít, kúamykju, sauðatað og þurrkaðan hænsnaskít eða áburð eins og þangmjöl, sveppamassa, safnhaugamold og moltu.

Magn áburðarefna í mismunandi gerðum lífræns áburðar er breytilegt og það er líka breytilegt eftir því hvernig meðferð áburðurinn hefur fengið.

Hæfilegt magn í garðinn getur því verið tvær til fjórar skóflur af hrossataði á fermetrann í ræktun matjurta og um hálfur lítri af hænsnaskít eða þörungamjöli.

Til að fá sem besta nýtingu úr lífrænum áburði er nauðsynlegt að dreifa honum jafnt yfir svæðið sem hann á að fara á og pæla honum saman við jarðveginn eða leysa hann upp í vatni og vökva með honum.

Kostir lífræns áburðar eru að hann bætir jarðvegsbygginguna og starfsemi hinna nauðsynlegu jarðvegsörvera. Hann er líka lengi að brotna niður og temprast þannig út í jarðveginn, honum skolar síður út en auðleystum tilbúnum áburði og nýtist því plöntunum yfir langan tíma.

 - Vilmundur Hansen.