Sígræn flækja

Vírtré eða flækjurunni er ný tegund í ræktun sem potta- eða skálaplanta hér á
landi, kærkomin viðbót og ekki annað að sjá en að hún standi sig ágætlega við
réttar aðstæður.

Vaxtarlag plöntunnar er tvímælalaust áhugavert og margbreytilegt og líkist
einna helst flækju af grönnu vír með smávöxnu og grásilfurlitu laufi.

Plantan dafnar best á þurrum og sólríkum stað í vel framræstum jarðvegi sem
gjarnan má blanda að hluta með vikri eða möl. Best er að vökva plöntuna
reglulega með volgu vatni en hóflega í hvert sinn og gott er að vökva með daufri
áburðarblöndu annað slagið yfir vaxtatímann. Ræturnar mygla standi þær í vatni.

Í náttúrulegum heimkynnum sínum þola plönturnar frost en ólíklegt er að þær
þoli umhleypingana utandyra hér á landi. Góð skálaplanta.

Flækjurunni er hægvaxta en við hagkvæm skilyrði er plantan hávaxinn runnu og
getur náð um þriggja metra hæð.

Börkurinn er grófgerður, dökkur að lit og vex í allar áttir. Greinaendar
plöntunnar oft lauflausir. Laufið er sígrænt, grænt, silfur- eða gráleitt og
leðurkennt viðkomu, egglaga, tveir til tólf sentímetrar að lengd en yfirleitt í
styttri kantinum. Blómin smá, skærgul, stjörnulaga og ilmandi. Berin rauð eða
gul.

Á latínu kallast tegundin Corokia cotoneaster. Innan ættkvíslarinnar Corokia
finnast sex tegundir. Ættkvíslaheitið er dregið af heiti plöntunnar á máli

innfæddra Maóra í náttúrulegum heimkynnum plöntunnar á Nýja-sjálandi en
tegundarheitið cotoneastar vísar til þess að laufblöðin líkjast laufi mispla.
Viður greinanna er harður og nýttu Maórar þær meðal annars til að búa til öngla
og nálar. Plöntunni var fyrst lýst og hún skráð af franska grasafræðinginum
Étienne Fiacre Louis Raoul árið 1846.

- Vilmundur Hansen.