Lífrænn áburður

Sé lífrænum áburði blandað í jarðveg með plöntu sem verið er að planta út hefur hún með sér gott nesti fyrstu árin. Ferskur lífrænn áburður, sérstaklega skítur, er sterkur og brennir rætur plantna komist hann í beina snertingu við þær. Þess vegna verður að blanda hann vel saman við jarðveginn áður en plantað er.

Þurrkaður hænsnaskítur, þörungamjöl, sveppamassi, molta og safnhaugamold eru að öllu jöfnu betri kostur en ferskur búfjáráburður þegar velja skal lífrænan áburð í garðinn. Þurrkaður hænsnaskítur er laus við illgresisfræ vegna þess að við framleiðslu er hann hitaður þannig að öll fræ í honum drepast. 

Í búfjáráburði og safnhaugamold geta aftur á móti leynst fræ sem spíra eftir að þau koma í garðinn. Ómeðhöndlaður búfjáráburður er líka mjög sterkur og yfirleitt þarf að láta hann standa og brjóta sig í nokkur ár fyrir notkun.

Þörungamjöl er snautt af köfnunarefni og því gott að nota það sem lífrænan áburð í kartöflugarðinn, á grasflötina og undir þökur. Hæfilegt magn af þörungamjöli í matjurtagarðinn er 5 kíló á 25 fermetra en sama magn á 100 fermetra grasflöt og beð. 

- Vilmundur Hansen.