Á hverju sumri kemur upp umræða um eitraðar plöntur í görðum. Oftar en ekki hefst umræðan á því að foreldrar ungra barna hafa heyrt að gullregn sé eitrað og hafa í framhaldi af því áhyggjur af því að gullregnið sé börnunum hættulegt.

Vissulega er rétt að gullregn er eitrað og mest er af eitrinu í fræbelgjum trjánna. Full ástæða er til að sýna aðgát, sérstaklega ef ung börn leika laus í kringum gullregn. Engin ástæða er þó til að munda keðjusög og fella gullregnið. Því auk gullregns er að finna fjöldann allan af eitruðum plöntum í garði, haga og stofu.

Aukin ræktun og innflutningur á plöntum hefur aukið framboð þeirra til muna. Sumar þessara plantna geta verið varasamar og jafnvel eitraðar og er því nauðsynlegt að fólk sé vel á verði og að foreldrar gæti þess að börn komist ekki í þær. Íslensk börn eru fæst vön því að borða plöntur beint úr náttúrunni en smábörn eru gjörn á að stinga öllu upp í sig.

Garðeigendur skyldu því auk gullregns vera á verði gagnvart plöntum eins og venusvagni, fingurbjargarblómi, liljum vallarins, geitabjöllu, töfratré og ylliber geta verið varasöm ef þeirra er neitt í einhverjum mæli. Fólki er sérstaklega bent á að vara sig á ývið og lífvið þar sem safinn úr þessum plöntum er mjög eitraður og jafnvel banvænn.

Sér í lagi ætti fólk að vara sig á bjarnarkló sem við snertingu í sól getur valdið bruna og stórum og sársaukafullum blöðrum.

Af varasömum pottaplöntum má nefna neríu, næturstjörnu, friðarlilju, jólastjörnu, köllu og allar mjólkurjurtir.

Til þess að koma í veg fyrir eitrun af völdum plantna ætti því að hafa eftirfarandi atriði í huga:

  • Aflið upplýsinga um plönturnar þegar þær eru keyptar, varist að kaupa eitraðar plöntur.
  • Það getur verið hættulegt að stinga upp í sig plöntuhlutum, hvort sem það eru lauf, stönglar, blóm, fræ, ber eða sveppir.
  • Neytið aldrei plantna eða sveppa sem þið þekkið ekki.
  • Hafið neyðarnúmer tiltækt ef eitrun á sér stað.
  • Ef nauðsynlegt reynist að fara á slysavarðstofu er brýnt að taka með hluta plöntunnar. Það hjálpar læknum og hjúkrunarfólki að átta sig á hvers eðlis eitrunin er.
  • Notið hanska þegar eitraðar plöntur eru meðhöndlaðar.