Vottun fyrirtækja

sem taka við lífrænum hráefnum til vinnslu, pökkunar eða sölu

Hvað eru lífrænar vörur? 
Lífrænar vörur eru framleiddar með sjálfbærum aðferðum og án eiturefna, hormóna og erfðabreyttra efna. Þessum aðferðum er beitt í framleiðslu matvæla, snyrtivöru, fatnaðar, áburðar, sáðvöru, dýrafóðurs, byggingarefna og fleiri afurða. Margvíslegur iðnaður, verslun og þjónusta byggjast á hagnýtingu lífrænna afurða.

Vottun er lögboðin – Hverjir þurfa vottun? 
Með lögum nr. 162/1994 og reglugerð nr. 74/2002 (sbr. reglugerð ESB nr. 2092/91) er öllum þeim sem markaðssetja vörur með tilvísun til lífrænna aðferða gert skylt að hafa vottun viðurkenndrar vottunarstofu. Þetta á við um allan feril vörunnar. 
Fyrirtæki sem taka við lífrænum vörum til frekari vinnslu eða til sölu þurfa að uppfylla þessi lagaákvæði ef um er að ræða eftirfarandi starfsemi:

 • Úrvinnslu á lífrænum hráefnum;
 • framreiðslu og matreiðslu byggða á lífrænum hráefnum;
 • pökkun eða endurpökkun á lífrænum vörum;
 • sölu á lífrænum vörum í lausu máli (þ.e. ekki beint úr pakkningum vottaðs aðila);
 • endurmerkingu pakkninga lífrænna vara til markaðssetningar undir eigin vörumerki (þ.e. merki nýs sölu- eða dreifingaraðila);
 • meðhöndlun innfluttra lífrænna afurða sem felur í sér eina eða fleiri af ofangreindum aðgerðum;
 • innflutning frá ríkjum utan EES-svæðisins, nema innflutning afurða sem vottaðar eru af tilteknum eftirlitsaðilum í löndum sem tilgreind eru í X.-viðauka reglugerðar nr. 74/2002.


Hvernig er sótt um vottun?
 
Áður en til kynningar, auglýsinga, sölu og annarrar markaðssetningar á lífrænum afurðum kemur, þurfa fyrirtæki sem stunda ofangreinda starfsemi að sækja um vottun vottunarstofu. En vottun er veitt að undangenginni ítarlegri úttekt, að því tilskildu að fyrirtækið uppfylli þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt stöðlum. Hafið samband við Tún sem veitir nánari upplýsingar og gefur út umsóknargögn.

Reglur – Staðlar 
Reglur Túns um lífræna framleiðslu lýsa nánar þeim aðferðum sem viðhafa ber við framleiðslu og meðferð lífrænna afurða og þeim kröfum sem gerðar eru til fyrirtækja sem meðhöndla slíkar vörur.

Hvaða skilyrði eru sett fyrir vottun? 
Fyrirtæki, sem hyggjast taka á móti lífrænum afurðum til úrvinnslu, pökkunar, geymslu, frekari flutnings og dreifingar, þurfa einkum að gæta að eftirfarandi þáttum:

 • Öflun upprunavottorða sem staðfesta hver framleiddi hvert hráefni (þ.e. sá sem síðastur meðhöndlaði afurðina) og hver vottaði þann framleiðanda, þ.m.t. afrit af vottorði vottunarstofu þar sem fram kemur hvaða starfsemi og vörutegundir eru vottaðar.
 • Aðgreiningu lífrænna afurða frá öðrum afurðum og efnum á öllum stigum vinnslu- eða pökkunarferlis.
 • Réttri efnanotkun (samkvæmt skrám í reglum Túns um leyfð efni) hvað varðar íblöndun, þrif, meindýra- og sjúkdómavarnir.
 • Viðhlítandi merkingum og hóflegri umbúðanotkun.
 • Rekjanleika afurða (uppruna- og strikamerkingar).
 • Skilmerkilegu skýrsluhaldi fyrir þann hluta starfseminnar sem varðar lífrænar afurðir.
 • Ráðstöfunum til að tryggja ábyrgð starfsmanna á meðhöndlun lífrænna afurða, fræðslu þeim til handa um málið og samþættun við innri gæðastýringu.
 • Ef um vinnslu villtra jurta er að ræða skal tiltekinn aðili bera ábyrgð gagnvart Túni á umhirðu söfnunarsvæðis, uppskeru og skýrsluhaldi og skulu samningar við safnara taka mið af því.