Þekja á beðin

Algengustu aðferðirnar í baráttunni við illgresið er að reyta eða eitra. 

Fyrri aðferðin er seinleg og erfið og mörgum finnst hún leiðinleg. Aðferðin er aftur á móti umhverfisvæn og henni fylgir holl útivera. 

Sú síðari er fljótvirk og auðveld en henni fylgir sú hætta að menn drepi fleiri plöntur en ætlunin er og svo eru margir á móti því að nota eiturefni nema í neyð. Svo ekki sé nú talað um hversu notkun örgresisefna er skaðleg fyrir vistkerfi garðsins og umhverfið allt.

Þriðja aðferðin er að þekja beðin en sú aðferð er nefnd ,,mulching“ erlendis. Aðferðin felst í því að hylja eða þekja beðin með lífrænu efni og kæfa illgresið um leið. 

Þekjan ver jarðvegsbygginguna, eykur magn næringarefna og kemur í veg fyrir útskolun þeirra. Hún heldur jarðveginum rökum í þurrkatíð og temprar hitabreytingar. Aukið magn lífrænna efna í jarðvegi bætir starfsemi ánamaðka, en þeir eru bestu vinir garðeigandans. Ánamaðkar flýta rotnun, bæta byggingu jarðvegsins og auka loftskipti. Beðin verða einn stór safnhaugur, iðandi af lífi, þar sem umskipti næringarefna eru sífellt í gangi. 

 

Þekjuaðferðin sparar einnig ómælda vinnu og umstang með því að draga úr magni lífræns garðaúrgangs og fólk losna við að fara á gámastöð með hann.

 

Hægt er að nota nánast allan lífrænan úrgang í þekju. Best er að velja efni sem auðvelt er að nálgast og einnig er skynsamlegt að velja efni sem gefur ekki frá sér sterka lykt eða fýkur burt. Nýslegið gras og laufblöð er sú þekja sem hvað auðveldast er að ná í. Garðeigendur kannast við þá fyrirhöfn sem fylgir því að losna við það úr garðinum. Í stað þess að setja grasið og laufin í poka og fara með á gámastöð er upplagt að dreifa því yfir beðin og nýta þannig næringarefnin í því og kæfa illgresið um leið.

 

Garðeigendur ættu því hiklaust að prófa þessa aðferð í stað þess að eyða sumrinu liggjandi á hnjánum og tína arfa með rassinn upp í sólina. 

- Vilmundur Hansen.