Auk þess að vera til prýði eru margar tegundir sumarblóma bragðgóðar og vel ætar. Blóm skjaldfléttunnar minna á pipar, krónublöð morgunfrúar henta vel í pottrétti og blöð fagurfífils eru góð í salat. Sumarblóm eru því ekki bara augnayndi, þau eru líka góð í magann.

Dúkablóm. Fíngert og fallegt blóm sem svipar til flauelsblóms, enda náskyldar tegundir. Plantan er dugleg að blómstra en viðkvæm fyrir kulda og bleytu. Krónublöðin eru bragðsterk og ágæt sem skraut á salat. Blöðin má nota sem krydd í staðinn fyrir estragon.

Fagurfífill. Vinsælt sumarblóm og mikið garðaprýði. Fáir vita aftur á móti að krónublöðin bragðast ágætlega og henta vel sem skraut á mat. Einnig má saxa niður laufblöðin og nota þau í salat.

Morgunfrú. Stór appelsínugul blóm með mörgum krónublöðum sem auðvelt er að rífa af. Fara vel í pottrétti, með hrísgrjónum eða salati. Krónublöðin henta líka ágætlega sem skraut á súpu og ljósar sósur. Blöðin eru líka góð í salat.

Nellika. Blóm í mörgum litum. Blómin eru æt en þykja full bragðsterk og henta því vel sem bragðaukar í olíur og edik. Þurrkuð blöð eru einnig notuð sem skraut á kökur og búðinga. 

Skjaldflétta. Auk blaða og blóma eru fræbelgir og óþroskuð fræ skjaldfléttunnar æt. Blómin eru falleg í salatið, af þeim og blöðunum er milt sinnepsbragð og þau bragðast svipað karsi. Best þykir að neyta plöntunnar hrárrar þar sem hún missir bragð við hitun. Skjaldfléttan er mikil lækningajurt og frumbyggjar í Perú og Bólivíu rækta hana sem matjurt sem þeir neyta í ríkum mæli. Í plöntunni eru efni sem halda vírussýkingum í skefjum, því er te af skjaldfléttu gott við kvefi. Blöðin má þurrka til vetrarins.

Stjúpa. Án efa harðgerðustu sumarblómin sem vaxa hér á landi. Blómin eru litskrúðug og falleg og ómissandi í garðinn. Fáir vita þó að bæði blóm og blöð eru æt og bragðast ágætlega hrá í salati og með ítölskum mat. Hefð er fyrir því að nota sykurþurrkuð blómin til að skreyta kökur.

Sólblóm. Allir þekkja fræ sólblómsins en færri vita að krónublöð og blómvísar jurtarinnar eru einnig ætir og gefa frá sér svipað bragð og fræin, en mildara. Gott er að rista fræin á pönnu en krónublöðin og blómvísarnir þykja bestir hráir. 

  • Vilmundur Hansen.