Veturinn er sá árstími sem sígræn tré og runnar njóta sín best og allra best þegar snjórinn liggur yfir eins og hvítt teppi.  

Fallegt er að hafa sígræna runna í pottum við innganginn og ekki dregur úr fegurðinni og hlýunni séu runnarnir skreyttir ljósum í skammdeginum hvort sem það er hvítt eða rautt.

Græni liturinn í skammdeginu og að hafa sígrænar plöntur í kringum sig á vetrasólstöðum er æfa gömul hefð og grænu plönturnar tákn um rísandi sól og komandi vor.

Gott er að temja sér að líta á sígræna runna í fallegum útipottum eins og sumarblóm nema hvað sígrænu plöntunum er ætlað að standa yfir veturinn. Að vori má skipta þeim út og planta sumarblómum í kerið.

Komi runnarnir vel undan vetri má planta þeim út í garð eða ef plássið er lítið gefa vinum eða vandamönnum sem hafa meira pláss plöntuna.

Mismunandi ættkvíslir og tegundir barrviða geta verið mjög ólíkar í útliti. Þær eru allt frá því að vera margra tuga metra há tré niður í jarðlæga runna sem þrífast við margs konar aðstæður.

Lífviður, sýprus og einir allt eru þetta fallegir sígrænir runnar sem fara vel í pottum og auðvelt er að skreyta ljósum og standa allan veturinn.