Flokkun hátíðarlilja

Hátíðarliljur, páskaliljur eða narsissur eiga uppruna í Evrópu, Norður-Afríku og Asíu. Þeim er skipt í deildir eftir tegundum, lögun blómsins og erfðafræðilegum bakgrunni. Hátíðarliljur í öllum deildum er hægt að fá í mörgum en yfirleitt ljósum litum.

  1. Lúðurlaga páskaliljur (Narcissus pseudonarcissus). Skálin lengri en blómblöðin. Eitt blóm á hverjum stöngli. 30 til 60 sentímetra háar.
  2. Stórar, klukku- eða skálalaga páskaliljur. Skálin að minnsta kosti 1/3 af lengd blómblaðanna en samt ekki full lengd þeirra. Eitt blóm á hverjum stöngli. 30 til 50 sentímetra háar. 
  3. Litlar, klukku- eða skálalaga páskaliljur. Skálin innan við 1/3 af lengd blómblaðanna. Eitt blóm á hverjum stöngli. 30 til 40 sentímetra háar.
  4. Fylltar páskaliljur. Skálin fyllt. Eitt eða fleiri blóm á hverjum stöngli. 30 til 40 sentímetra háar. 
  5. Triandrus- eða pálmasunnuliljur (N. triandrus). Blómin hanga eins og bjöllur. Yfirleitt tvö eða fleiri blóm á hverjum stöngli. 25 til 40 sentímetra háar.
  6. Cyclamineus- eða febrúarliljur (N. cyclamineus). Blómin eins og þau hafi staðið í vindi. Eitt blóm á hverjum stöngli. 20 til 40 sentímetra háar
  7. Jonquilla eða jónsmessuliljur (N. jonquilla). Blómin lítil og blómblöðin flöt. Eitt til þrjú blóm á hverjum stöngli. Ilmsterkar. Blöðin mjó eins og strá. 25 til 40 sentímetra háar.
  8. Tazetta eða janúarliljur eða jólaliljur. (N. tazetta) Mörg blóm á hverjum stöngli. Blöðin breið. Ilmsterkar. 15 til 40 sentímetra háar. Hér aðeins ræktaðar sem pottablóm á veturna, oft um jólaleytið. Þær þrífast ekki úti á görðum.
  9. Skálda- eða hvítasunnuliljur (Narcissus poeticus). Skálin lítil og hrukkótt, blómblöðin hvít. Yfirleitt eitt ilmandi blóm á hverjum stöngli. 30 til 40 sentímetra háar.
  10. Villtar hátíðarliljur, (ýmsar tegundir. Krónublöðin lítil en skálin áberandi og trektlaga, þrátt fyrir að vera lítil. Eitt blóm á hverjum stöngli. 12 til 30 sentímetra há.
  11. Klofnar eða  flipóttar  páskaliljur (Split Corona – N. pseudonarcissus). Skálin klofin eða flipuð allt að hálfri lengd hennar. 30 til 45 sentímetra háar.
  12. Óflokkaðar. Ýmsar tegundir af víxlfrjóvguðum hátíðarliljum. 12 til 20 sentímetra háar.
  13. Villtar hátíðarliljur eru tegundir sem finnast villtar í náttúrunni og hafa ekki verið kynblandaðar í ræktun. 10 til 30 sentímetra háar.